Hvernig lokum við kynjabilinu í atvinnulífinu?

 

Hvernig lokum við kynjabilinu í atvinnulífinu hér á landi ?

Kynjamisrétti er alþjóðlegt fyrirbæri og sést vel í markmiði Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og fulla þátttöku kvenna í ákvarðanatöku. Ísland er í fararbroddi jafnréttismála og hefur árið 2023 náð að loka rúmlega 91% af því kynjabili sem hefur ríkt í samfélaginu. Þrátt fyrir það er enn þörf á aðgerðum til að loka kynjabilinu í efnahagslegri þátttöku og ákvarðanatöku kvenna í atvinnulífinu þar sem ríflega 60% bilinu hefur verið lokað. Fyrsta markmið rannsóknarinnar er að koma auga á leiðir til að loka kynjabilinu með því að kanna viðhorf lykilstjórnenda til leiða til þess að loka kynjabilinu. Tekin hafa verið viðtöl við konur og karla sem sitja í stjórnum allra skráðra félaga hér á landi. Auk þess hafa verið tekin viðtöl við framkvæmdastjóra og stjórnarformenn lífeyrissjóða og spurningakönnun verður lögð fyrir aðila í íslensku viðskiptalífi.

Áhrif jafnlaunastaðalsins á launabil kynjanna

Íslensk löggjöf um jafnlaunastaðal er einstök í heiminum. Í engu öðru landi er krafa á fyrirtæki og stofnanir að hafa gæðakerfi í kringum launasetningu starfsfólks.  Markmið rannsóknarinnar er að kanna áhrif löggjafar um jafnlaunavottun á kynbundinn launamun til þess að svara spurningum um áhrif löggjafarinnar.

Í rannsókninni verður gögnum safnað til þess að rannsaka áhrif  jafnlaunastaðals á launamun kynjanna. Markmiðið að kanna áhrif fyrstu löggjafar heimsins um jafnlaunastaðalinn árið 2017 (lög nr. 10/2008; lög nr. 150/2020) á  bæði leiðréttan (e. adjusted) og almennan (e. unadjusted) launamun.

Áskoranir og hvatar við að fjárfesta með jafnréttisgleraugum

Síðastliðin ár hafa fjárfestingar með jafnréttisgleraugum vaxið hvað hraðast meðal ábyrgra fjárfestinga. Fjárfestingar með þessari áherslu eiga sér oftast stað í gegnum vísitölusjóði og hafa laðað til sín hundruði milljarða, meðal annars frá stærstu lífeyrissjóði heims. Markmiðið með slíkum fjárfestingum er að ýta undir jafnrétti kynjanna í atvinnulífinu. Þar sem jafnréttistengdar fjárfestingar eru nýjar af nálinni eru fáar rannsóknir sem varpa ljósi á þær áskoranir sem stofnanafjárfestar standa frammi fyrir vegna þeirra.

Rannsóknin beinist að fjárfestingarferli stofnanafjárfesta, á Íslandi og í Bandaríkjunum, og er markmiðið að rannsaka hvaða áskoranir stofnanafjárfestar standa frammi fyrir þegar fjárfest er með jafnréttisgleraugum. Þá er jafnframt markmiðið að kanna áhrif stofnanafjárfesta, við eftirfylgni á fjárfestingu, við að jafna kynjabilið í forystustörfum meðal fyrirtækja í eignasafni þeirra. 

Útbúinn hefur verið gagnagrunnur og vinna hafin við að safna gögnum til að rannsaka áhrif stofnanafjárfesta á borð við lífeyrissjóði við að jafna kynjabilið í atvinnulífinu, meðal annars um fyrirtæki og vísitölusjóði í eignasafni stofnanafjárfesta, samsetningu og stöðu kynjanna meðal þeirra fyrirtækja, eftir löndum og ríkjum Bandaríkjanna.